málvísundur(og stórmerki)

fimmtudagur

Ítarlegt eða ýtarlegt

Þetta vissi ég ekki. Sá orðið 'ýtarlegt' á einhverri heimasíðu og fannst það skrítið. Nokkuð fátækur þegar kemur að íslenskum orðabókum, svo ég fletti báðum orðunum upp í Google. Mun fleiri síður hafa þetta skrifað sem 'ítarlegur', og sjaldan lýgur almannarómur.
Eða hvað? Fletti orðunum síðan upp í Orðsifjabók, og þá kom í ljós að báðar stafsetningarnar eru í lagi... en merkingin er ólík!

ítur, +ítr l. 'ágætur, göfugur, glæsilegur'; ítarleg(u)r l. + 'fagur, ágætur, ...', sbr. einnig samsetn. eins og ít(u)rmað(u)r, íturmenni 'ágætismaður, höfðingi', íturvaxinn 'vel vaxinn', íturfagur 'mjög fagur', ít(u)rlauk(u)r + 'veldissproti', Ítrek(u)r k. + 'Óðinsheiti, konungur í tafli', eiginl. 'ágætur konungur', sbr. -rek(u)r, -reki 'stjórnandi, konungur'. Sbr. fær ítrari, ítrastur 'betri, bestur' og fe. Itermann, lþ. Itermann karlmannsnöfn; ítur < germ. *itra-. Uppruni óviss. Hugsanlega í ætt við eitill og eitur (s.þ.) og upphafleg merk. 'þrýstinn, stór, stæltur'. Óvíst.

ýtarlega ao. (18. öld) 'rækilega, nákvæmt, ...'; ýtarlegur l. (19. öld) 'rækilegur, nákvæmur,...'. To., líkl. úr gd. yderlig (sbr. no. ytterlig, fsæ. yterliker) frekar en beint úr mlþ. uterlich. Af sama toga (og to. úr d.) eru ýtari (l. mst) 'frekari, nákvæmari' og ýtrastur (l. hst.) 'fremstur, mestur, ...' (< d. ydere, yderst (fd. utærst)). Sk. út, ytri og ystur; ath. ítur.

Merkilegt nokk. Þá vitið þið það, ef þið eruð að fylla út eyðublað þar sem beðið er um ítarlegri upplýsingar, þá skulið þið skrifa eitthvað hástemmt og fallegt. Og skáldið eins og ykkur sýnist, svo lengi sem útkoman er fallegri en veruleikinn.

|